Ég var búin að hlakka til þessa dags enda átti ég pantaðan dekurtíma hjá Söndru í Heilsu og útliti. Sandra tók brosandi og glöð á móti mér eins og venjulega og hafði í nógu að snúast eins og alltaf. Síminn hringdi meira en
venjulega enda hafði Sandra verið í útvarpsþættinum Ísland í bítið þennan morguninn og hafði varla undan að svara fyrirspurnum í símann. En í morgunútvarpinu hafði Sandra sagt frá nýjustu meðferðinni sem Heilsa og útlit er að bjóða upp á en það er svokölluð fitufrysting. Sú meðferð hefur slegið rækilega í gegn enda afar árangursrík leið til að losna við óæskilega fitu sem erfitt getur verið að losna við. Hægt er að lesa allt um það HÉR. En, ég var að koma í sognudd (SPM) og í vafninga.
Ég var uppveðruð yfir viðtalinu við Söndru og þessum nýjungum og talaði því nánast stanslaust um það og spurðist fyrir um ýmislegt á meðan Sandra gerði mig tilbúna fyrir nuddið.
Kominn tími til að heyra sannleikann
Sandra sagði mér undan og ofan af frystimeðferðinni en var samt ákveðin í því að ég þyrfti á sognuddinu að halda. Og mikið sem hún hafði rétt fyrir sér! Nuddið sem skammstafað er SPM endurlífgar aldagamla aðferð í nýju formi. Sogvirknin var þróuð af Weyergans og er byggð á nýjustu niðurstöðum lækna og snyrtivöruframleiðanda. Þannig sameinast gamlar og nýjar aðferðir í þessu einstaka nuddi.
Eftir nokkur skipti í Heilsu og útliti var komið að smá vitundarvakningu hjá mér. En það gerðist eiginlega þegar Sandra byrjaði á sognuddinu. Hún notar þar til gert tæki, sem virkar í rauninni svolítið eins og ryksuga. Nuddið var ósköp þægilegt í fyrstu en fljótlega fór ég að finna undarlega verki og óvenjuleg óþægindi undan soginu. En í stuttu máli sagt hjálpar sognuddið til við að ná aftur fram heilbrigðum efnaskiptum í húðinni. Sogið eykur frumuskiptingu, blóðflæði til frumnanna, súrefnið eykst og næringarefnin nýtast þar með betur.
Sást á líkamanum hvað ég hafði borðað daginn áður
Sandra sagði mér að það væri ekkert skrýtið að ég fyndi fyrir óþægindum þar sem ég væri frekar illa farin af bólgum í líkamanum. Ég spurði hana hvað veldi og hún gat ekki varist brosi þegar hún svaraði mér af hreinskilni að þetta væri eingöngu lífstílstengt. Ég gat ekki annað en hlegið svolítið af sjálfri mér, vegna þess að ég vissi að hún hafði algjörlega rétt fyrir sér. Sandra tók mjög létt á mér en samt fann ég til óþæginda, og þá sérstaklega í innri lærunum og upphandleggjunum. Sandra passaði sig samt á því að þetta yrði ekki of vont en það var nóg til þess að það vakti mig til umhugsunar hvað ég væri í rauninni að láta ofan í mig dags daglega.
Það fyndnasta við þetta var eiginlega að Sandra sá að ég hafði borðað brauð daginn áður. Ég varð steinhissa og spurði hvernig í ósköpunum hún vissi það. En, fyrir vana manneskju eins og hana þá var þetta bara augljóst. Líkaminn minn er bara því miður alltof bólginn og ástæðan er hreinlega sú að ég hef ekki hugsað nógu vel um hann. Líkaminn minn bregst mismunandi við fæðutegundum og það sem meira er, er að ég veit að brauð fer ekki vel í mig.
Eftir sognuddið fór ég í vafningana, en í þá hafði ég farið í fyrsta skiptið sem ég kom til Söndru í vetur. Mér var vafið inn í hitateppið og sagt að taka því rólega í að minnsta kosti í hálftíma. Í þetta sinn var aðeins öðruvísi að vera í vafningunum enda nýkomin úr sogæðanuddinu. Ég fann hvernig óhreinindin hreinlega soguðust úr líkamanum og fljótlega fór ég að hitna og svitna. Mér tókst nú samt að steinsofna enda ekki erfitt í myrkuðu herberginu undir ljúfri tónlistinni.
Er farin að bera meiri virðingu fyrir líkamanum
Eins og venjulega flaug ég út á vellíðunarskýi. Reyndar með þau ráð í pokahorninu að drekka meira af vatni og huga betur að matarræðinu og sjálfri mér allri. Ég hef staðið við það og núna er ég farin að sjá hversu bólginn líkaminn er í rauninni. Eitt sem ég hef líka tekið eftir er að húðin – stinn og mjúk eins og hún var eftir meðferðina – er búin að haga sér aðeins öðruvísi seinustu daga. Það er eins og ég sjái meira bjúginn til dæmis. Þetta er erfitt að útskýra en ábyggilega er þetta algjörlega mismunandi eftir einstaklingum. Það allra besta við þessar stundir sem ég gef sjálfri mér er að, ég öðlast ótrúlega mikla hvatningu til þess að fara að sýna sjálfri mér meiri væntumþykju. Ég hef til dæmis drukkið helling af vatni síðan ég fór til Söndru seinast (enda sífellt á klósettinu) og svo hef ég hugsað vel um hvað ég set ofan í mig. Vellíðanin sem fylgir þessu er einnig ótrúleg. Ég er orkumeiri, hef meira úthald, betri einbeitingu og líður bara miklu betur í öllum líkamanum.
En, ég verð að segja að upplifun mín hjá Söndru er hreinlega engri lík. Ég er svo þakklát fyrir að hafa fundið þessa stofu og haft hugrekki til þess að setja vellíðan mína í fyrsta sæti. Ég finn hreinlega hvernig líkaminn minn er að vakna til lífsins og ég í leiðinni!
Ég get ekki beðið eftir næsta tíma en þá fer ég í heildrænt nudd. Meira um það seinna.